Af glæpum
Stundum hef ég heyrt talað um óprúttna menn sem koma öðrum fyrir kattarnef með því að hnupla og eyðileggja. Ég hef meira að segja stundum heyrt um glæpaöldur. Hingað til hef ég hins vegar bara hlegið strákslega og farið með gamanyrði þegar ég heyri eins fjarlægar sögur. En það gamla strákslega sakleysi mitt dó í dag.
Þegar ég var búinn að þjálfa í Víðistaðaskóla kom á daginn að einhver hafði brotið rúðu í bílnum mínum, mölvað miðstöðina, stolið geislaspilaranum og allavega fimmtán diskum. Seinna kom í ljós að ribbaldarnir höfðu einnig tekið skólatöskuna mína sem hljóðkerfisfræðiprófessorinn minn fékk einhverra hluta vegna og geymir heima hjá sér. Sá durgur hringdi einmitt í mig í kvöld vegna þessa og gruna ég hann sterklega um verknaðinn.
Ég bombaði mér í snatri á löggustöðina og þar tók skondinn haukur á móti mér og ekki byrjaði hann með stæl. Fyrstu orð hans voru:
“Já... ég er samt ekkert að vinna hérna... sko, málið er að árshátíðin hjá löggunni er í kvöld og ég er bara á þessari einu vakt.” Í kjölfarið sagði hann um glæpinn:
“Jájá, þetta eru sko atvinnumenn. Þetta hefur tekið innan við mínútu... nokkrar sekúndur bara... bara inn og út.” Á þessum tímapunkti þurfti ég að bíta fast í kinnina á mér svo ég springi ekki úr hlátri. En svo kom reyndar í ljós að gaurinn var mesti fagmaður og hörkulögga. Vann bara yfirleitt annars staðar. Við áttum einmitt innilegt spjall í sama yfirheyrsluherbergi (bara venjuleg skrifstofa en hitt hljómar betur) og við Danni vorum í er við vorum 14 ára opptúnógúdvillingar.
Allavega. Andskoti vorkennir maður slíkum aumingjum sem finna sig knúna til að brjóta rúðuna mína og rústa bílnum mínum. Hvernig sofa svona menn? Hvernig geta þeir farið fram úr á morgnanna? Djöfull hlýtur þeim að líða illa.
Tók samt mynd af rústunum sem blöstu við er ég kom að bílnum enda var ég í því að taka myndir af FH-ingum mánaðarins hjá 6. flokki. Myndina getið þið ekki séð “HÉR” vegna þess að ég kann ekkert á tölvur.
sunnudagur, mars 21, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli