föstudagur, apríl 02, 2004

Ummæli Jóa í e-u kommenti hér fyrir neðan hafa kallað á enn eina stórkeppnina hér á pagecannotbefound.com. Glöggt fólk man ugglaust eftir þegar ég vann Jóa í þrautinni að stilla upp fótboltaliði með sjálfum okkur innanborðs, þegar ég tók selina í hundabeinsstríði alþingismannanna og þegar Jói vann strandblaksmót kviðmága (siðvöndun okkar hinna gerði að verkum að við tókum ekki þátt).

Nú fer önnur eins skemmtiskúta af stað sem snýst um leiðinlegustu kvikmynd sögunnar. Jói hafði áður bent á Plump Fiction en eftir að hafa hugsað um að flagga t.d Johnny Mnemonic, Look who’s talking too og Star Trek V: THE FINAL FRONTIER kaus ég að velja hina ógeðslegu Kevin & Perry Go Large sem ég horfi einu sinni á, að ég held með Danna. Toppið það, gígalóar.

Til að auka á fjölbreytnina hef ég skyndilega ákveðið að mótið verði tvíþætt að þessu sinni og felist líka í því að velja hrokafyllsta fuglinn. Minn fugl er dílaskarfur. Sigurvegarinn þarf semsagt að vera fremstur á báðum vígstöðvum.

Annars eru þau tíðindi af mér að engin þjálfun, miðar vegna þjálfunar, verkefni eða skóli hvíldu á mér í dag svo ég gerðist svo brattur að kneyfa mjöð um hálfþrjú. Dagdrykkja er gríðarlega vanmetið fyrirbæri og ákveðið tabú á Íslandi (ef við myndum ímynda okkur að Raufarhöfn væri ekki á Íslandi). En jæja, Kevin & Perry Go Large og dílaskarfur og tel ég klárt mál að sigurganga mín haldi áfram.

þriðjudagur, mars 30, 2004

Í gær fékk ég ömurlegar fréttir og ekki bara eina heldur tvær...
Í fyrsta lagi kom í ljós að ég er ekki að fara á fótboltaleik í útskriftarferðinni af því að það fást engir miðar.
Í öðru lagi þá þarf að borga útskriftarferðina fyrir 14. apríl(shit shit*) og ég nýbúinn að borga rándýra viðgerð á bílnum mínum... það versta er að ég hélt að e-r söfnunarpeningur kæmi í hús fyrir fyrstu borgun en svo reyndist ekki vera...(shit shit shit**)
Þannig að í dag líður mér ekki vel og mér er illt í hendinni eftir þrjár bólusetingasprautur (sem kostuðu tæpan 7000 kall)
*(berið fram með frönskum hreim)
**(berið fram með því að halda fyrir nefið og tala afturábak)

mánudagur, mars 29, 2004

Ég byrgi þetta ekki inni mikið lengur. Sjónvarpsþátturinn Landsins snjallasti á Skjáeinum er versti sjónvarpsþáttur sem gerður hefur verið. Hugmyndin um það að skutla lesbíunni Rósu í settið með slatta af púðum og tómatsafa er betri. Þátturinn þar sem gaurinn úr Hellisbúanum lék sínöldrandi og óþolandi kerlingarskrukku sem hét Bára var betra sjónvarpsefni.

Hvaða bjáni gerist svo bíræfinn halda að það að borða búðing sé gott sjónvarpsefni? Hvaða gáfumaður telur einn léttan leik af samstæðuspilinu auka áhorf? Að raða kúlum í rétta röð eftir lit! Er verið að hæðast að okkur? Spilar einhver samstæðuspilið? Og hvað er málið með þessa glyðru? Hún er svo ótalandi, vélræn og vandræðaleg að maður finnur til með henni.

Því spyr ég: Hefur fólk e-n tíma séð verri þátt en þennan? Getur fólk ímyndað sér sjónvarpsþátt sem gæti mögulega verið verri en þessi? Er þetta löglegt?