sunnudagur, janúar 16, 2005

Í gær var ég að róta í skápum. Í öllu rótinu kom ég auga á myndbandsspólu merkta 25 ára afmæli Jethro Tull. Ekki þarf að eyða orðum í að Jethro Tull er eitt spólmagnaðasta band sem stigið hefur á svið enda ku það vera á vitorði allra viti borinna manna. Og enda horfði ég á spóluna. Ótrúlegt að sjá Ian Anderson á sviði sveiflandi helvítis flautunni og geiflandi sig eins og maður vangefinn. Mikill þáttur. Tóku svo við þættir um rokksöguna sem sýndir voru á RÚV fyrir mörgum árum og eru vart síðri. Ekki er þetta allt í frásögur færandi nema fyrir það að þegar ég er í miðjum rokksöguþætti þar sem Jimi Hendrix og Pete Townsend eru að segja sögur af Woodstock kemur í ljós að einhver hefur tekið yfir bút af rokksöguþættinum og blasir því allt í einu við hluti af Stundinni okkar frá því er Ásta og Keli réðu þar lögum og lofum. Stekk ég upp og er bæði vondur og óvær yfir þessu öllu. Þangað til að ég uppgötva gamlan grikk er við Snúlli bróðir gerðum Jóhanni Skagfjörð er ég var í Flensborg. Gerist það nefnilega þarna að Ásta er að segja frá myndunum sem börnin smáu höfðu sent inn í Stundina þessa vikuna, rétt eins og í öllum þáttum Stundarinnar. Segir hún orðrétt: “Þessa mynd sendi hún Dagný Rún... og þessa mynd sendi hann Jóhann Skagfjörð af honum Kela okkar... falleg mynd”. Á þessu augnabliki grét ég bókstaflega vegna kátínu. Rann upp fyrir mér að við Snúlli höfðum teiknað mynd af ketti með vinstri og sent í Stundina merkta Jóa í þeim tilgangi að koma honum fyrir kattarnef. Myndin var síður falleg og á henni stóð stórum stöfum (skrifuðum með vinstri): “Jóhann Skagfjörð” og “Keli er vinur minn”. Gladdi mig mikið að eiga þetta á spólu. Man að Jói fékk miklar ákúrur er hann mætti í Flensborg á mánudegi og kom á daginn að allmargir höfðu séð myndina hans. Mitt persónulega uppáhald þessa rugls var samt raunveruleikafirring barnsins sem endurspeglaðist í textanum: “Keli er vinur minn”. Ljóst að við Sveinn vorum komnir djúpt inn í karakter afar ráðvillts barns.

Áhugasömum er sannarlega velkomið að koma í heimsókn í Stekkjarhvamminn við tækifæri og berja þetta glettna myndbrot augum þegar þeim sýnist.