fimmtudagur, janúar 06, 2005

Á jólum fer ég á Jólamót. Jólamót í fótbolta. Með kumpánana sem ég þjálfa. Syni FH. Dvaldi langtímum saman á mótinu nú milli jóla og nýárs og þegar slíkt er uppi á teningnum fylgja ávallt súrar sögur. Verst er að maður man þær ekki allar en hér er þó léttur smjörþefur...

Var með þétt d-lið sem vann mótið. Unnu sinn riðil og léku því í undanúrslitum. Ákveðin spenna setti mark sitt á strákana í þeim leik enda vissu þeir að úrslitaleikur var í húfi og því voru fagnaðarlætin mikil þegar leiknum lauk og ljóst var að þeir höfðu unnið. Fagnað var útum allar trissur og þegar ég náði loks að hóa hjörðinni saman í 'hringinn' voru félagarnir á þeim buxunum að taka óleóleóleóle-ruglið á þetta. Ekki vildi betur til en svo að einn kappinn, sem líklega hefur óverdósað á jólaböllum þetta árið, byrjaði að emja 'Adam átti syni sjö' svo glumdi í húsinu. Hefur trúlega verið að leita að 'óleóleóleóle' í orðasafninu en ekki fundið það í sigurvímunni. Tveir aðrir muldruðu þennan sigursöng lágt með þar til meistarinn fattaði hvað hann var að syngja og snarþagnaði. Tók við vandræðaleg þögn þar sem allir litu niður í gólf nema ég sem hló svo sást í kok. Aldrei var þessi neyðarlegi atburður ræddur eftir þetta.

Verst að svona mót líða alltaf svo hratt að ég gleymi alltaf mesta ruglinu í lærisveinum mínum. Maður þyrfti að fara að safna þessu saman. Ólýsanlegir hlutir sem gerast t.d. í 'hringnum'. Fékk einu sinni "ég elska þig Krissi, en ég er samt enginn hommi" frá sjö ára gutta og "veistu Krissi, myndböndin hjá Eminem eru alltaf bönnuð". Er ennþá að vinna úr þessum athugasemdum.

Bý annars enn í tölvuherbergi. Ljótt ef það spyrst út að maður sem býr í slíku herbergi bloggi ekki. Drulluljótt.

sunnudagur, janúar 02, 2005

Já. Svona líka. Er ekki frá því að það sé að vaxa skott milli lappanna á mér. Maður hefur lengi haft hortugheitin á lofti og sagst aldrei ætla að skrifa á þessa síðu aftur. Svo er maður kominn aftur í óregluna.

Í gær flutti ég heim eftir dvöl á Holtsgötu 10. Það skiptir kannski ekki öllu máli hver hætti með hverjum og þess vegna þori ég alveg að segja að það hafi verið ég sem dömpaði Danna. Það var ekki honum að kenna heldur mér. Ég bara þoldi ekki mannhundinn. En þar sem maður mætir heim uppgötvast að litla systir er komin í herbergið mitt og herbergið hennar er nú tölvuherbergi. Land hátæknibúnaðarins. Þar bý ég. Maður hafði ekki greiðan aðgang að tölvu á Holtstímanum (eins og hann mun kallast í sjálfsævisögunni) en nú liggur beinast við að vera í tölvunni allan daginn.

Þeir segja að það sé komið nýtt ár. Vil meina að þetta hafi verið fersk áramót. Massapartí og létt en nett gítarstemmning hjá onkel Gulla fram eftir kveldi. Þá rólegt en mjög snjöll stemmning á Holtinu með Togga, Andra og fyrrverandi. Loks skelfilegt teiti á Áttunni þar sem ljósglætan í annars niðamyrkri var meistari Símon Jón. Reyndar ágætt að hitta hitt og þetta pakk þarna. Drógum meira að segja valinkunna einstaklinga heim á Holtið í eftirteiti sem var stutt því stefnan var svo tekin til Davíðs Arnars, vopnaðir bongótrommu og gítar. Tók þar á móti okkur flugfreyja. Var þar sungið. Einhvers staðar týndum við reyndar Andra. Hann hefur kannski verið orðinn smeykur þar sem ég var á tímabili farinn að bera saman höggtilburði mína og Ramsey nokkurs. Verður allavega ekki sagt um okkur að við sláum eins og dúkkulísur. Kannski annan okkar en ekki báða í einu.

Kveð ég að sinni.