Einvígi spóaleggjanna
Undirbúningur Krissa - 1. hluti
Óhætt er að segja að undirbúningurinn fari brösulega af stað. Hef tvisvar farið að skoða hlaupabrautina í Krikanum en lítið hlaupið ennþá, meðal annars hætt við vegna magaverks og lélegs skóbúnaðar. Ég tel fullvíst að ef við værum að keppa í afsökunarkeppni myndi ég taka Jóhann í óæðri endann. Já, sama enda og maðurinn reyndi að leigja um árið á Hansen.
Síðustu dögum hef ég aftur á móti einkum eytt í fuglaskoðun og fengið úr henni fína hreyfingu. Ég hef mikið spekúlerað í hlaupastíl ýmissa fugla og reynt að læra af þeim. Sérstaklega þykir mér mikið til koma hlaupalags spóans og mun reyna að tileinka mér það eins fljótt og auðið er. Hraðar fótahreyfingar einkenna það og mun ég lítið beita hnjánum, sem hafa einmitt lengi verið minn akkilesarhæll. Gæsir þykja mér hlaupa hægt og mun ég forðast að hlaupa eins og þær. Þá er hlaupalag skúfandarinnar alveg út í hött.
Það er einnig ljóst að mitt helsta tromp í einvíginu verður markviss sálfræðihernaður. Ég ætla fyrst að segjast vera búinn að æfa þrisvar á dag undir stjórn Mumma Karls en byrja svo að haltra eins og sjóræningi þremur dögum fyrir hlaup. Í hlaupinu sjálfu mun ég svo láta eins og ég sé með Parkinson-veikina. Þessi aðferð gæti dugað til sigurs en byggir þó á nógu góðri upphitun á páskadag.
Loks kem ég til með að treysta mikið á heppni í undirbúningnum. Ég hef enga trú á næringarfræði enda á allra vitorði að eitt hamborgaratilboð á dag hamlar gegn grasofnæmi.
Þrátt fyrir örfá skakkaföll er ég bjartsýnn. Nægur tími er til stefnu og þó Jói hafi það framyfir mig að hafa e-n tíma hlaupið 400 m hlaup vil ég meina að ég hafi ákveðið sálfræðilegt forskot. Hvað sem verður heiti ég því að ef ég tapa á páskadag mun ég gera mitt besta við að vinna Kvennahlaupið.
mánudagur, mars 22, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli