Þegar ég var lítill kunnu krakkar ekkert á hljóðfæri. Ja, þeir sem kunnu það voru flestir lagðir í einelti fyrir vikið. Munum t.d. flest eftir Jóa túbu og Fiðlu-Baldri. Ekki þóttu það merkilegir pappírar. Sem betur fer er þróunin önnur í dag. Nú kann annar hver krakkagemlingur á gítar eða trommur og allir eru í hljómsveitum. Í vetur sýndi einn guttinn sem ég er að þjálfa mér trommusettið sitt. Hann spilar ávallt á settið með massívan kappaksturhjálm á hausnum því hann á til að lemja sig firnafast í höfuðið í trommusólóum. Sá káti piltur kunni líka á gítar og var í tveimur hljómsveitum. Önnur þeirra, Gallafötin, er reyndar eiginlega hætt.
Einnig er vert að minnast þriggja félaga sem tjáðu mér um daginn að þeir kæmust ekki á næstu fótboltaæfingu þar sem þeir væru að fara í stúdíó. Níu ára gaurar! Þegar ég var níu ára var ég borðandi sand og safnandi fótboltamyndum... Milli þess sem ég henti eggjum í hús Jóa túbu og Fiðlu-Baldurs.
Síðasta dæmið er svo enn annar gaur sem ég er að þjálfa. Sá gerðist það brattur að mæta heim til mín áðan, aðallega til að segja mér frá rafmagnsgítarnum sem hann langar í. Ég missti úr mér að ég ætti nú svoleiðis apparat sem hann vildi ólmur skoða. Kemur í ljós að kauði er betri en ég á gítar, enda forsprakki sveitarinnar Þrír sykurpúðar. Það var nokkuð magnað að sjá hvað gaurinn var öflugur á gítar en ennþá magnaðri er sú staðreynd að ég náði einhvern veginn að halda hlátrinum inni í mér er hann sagði mér hljómsveitarnafnið.
Allavega, það sem ég er að reyna að segja er að ég hef ákveðið að hætta í hljómsveitinni Görlíbojs. Danni, Jói... Þetta var skemmtilegt ferðalag en ég tel að hæfileikar mínir njóti sín betur í herbúðum Þriggja sykurpúða (sem líklega verða orðnir fjórir ef ég bætist við). Ég þakka ykkur fyrir samstarfið og ítreka að ég mun alltaf bera virðingu fyrir ykkur sem listamönnum.
mánudagur, apríl 05, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli