föstudagur, mars 19, 2004

Kæri Jóhann.

Ég vorkenndi þér þegar ég frétti að þú flyttir á Raufarhöfn, staðinn sem ekki einu sinni rottur heimsækja nema til að deyja.

Ég vorkenndi þér þegar ég frétti að enginn hiti væri í íbúðinni þinni og þú þyrftir að sofa dúðaður eins og Ikingut litli.

Ég vorkenndi þér þegar ég frétti að vegna ófærðar væri engan mat að hafa á Riben og þú værir byrjaður að naga gólfteppi til að sporna gegn næringarskorti.

En nú berast fréttir þess efnis að þú, fullorðinn maðurinn, sért byrjaður að spila jatsí sjálfviljugur. Þú veist hvað þeir segja um jatsí, eitt jatsíspilerí er tilviljun – tvö er hegðunarmynstur. Áhyggjur mínar af þér hafa stóraukist.
Jatsí er leiðinlegasta spilið. Enginn maður sem spilar jatsí getur talist ganga heill til skógar. Þegar refsa átti ósamvinnuþýðu búaliði á tímum Stalíns var jatsí hluti af píningunum. Þegar draga átti sannleikann upp úr Atla Helgasyni var hann látinn spila jatsí.

Með þessar staðreyndir í huga hef ég ákveðið að bjóða mig fram og taka við afplánun þinni á Riben. Hér með býðst ég til að taka við starfi þínu sem grunnskólakennari á Raufarhöfn og get hafið störf strax á mánudaginn.

Með von um skjót viðbrögð,
Kristmundur

Engin ummæli: