mánudagur, júlí 05, 2004

Djúpavík

Ég fór í ferðalag til Djúpuvíkur, lítils þorps þar sem faðir minn ólst upp. Fyrsti áfangi ferðarinnar hófst seinni part þriðjudags, en þá var keyrt til Akureyrar. Annar áfanginn hófst svo á miðvikudagsmorgun, reyndar mun seinna heldur en ferðalangar höfðu áætlað. Við vorum komin á Hólmavík um hálf þrjú leytið. Þaðan er aðeins einn og hálfur tími til Djúpuvíkur. En af illri nauðsyn þurftum við að bíða á Hólmavík til fimm. Við áttum nefnilega eftir að kaupa áfengi í ferðina og ríkið nýopnaða á Hólmavík opnar ekki fyrr en þá. Það er ekki mikið að gera á Hólmavík þannig eftir að við gerðum allt sem er hægt að gera þar lögðum við bílnum niður við bryggju og fórum bara að gera…krossgátu í klukkutíma. Loksin var hægt að halda áfram. Ekkert markvert gerðist á leið til Djúpuvíkur nema að við pikkuðum upp einhvern Ungverja og gáfum honum far áleiðis. Hann var nokkuð skrítinn.
Djúpuvíkurdvölin var öll hin ánægjulegasta. Grillað á hverju kvöldi, farið í sund á Krossnesi og skoðað sig um í nágreninu. Fengum til okkar heiðursfólkið Olgu og Ragga á fimmtudeginum og börnin þeirra tvö. Gústi stórfrændi var líka á svæðinu og bauð okkur í massa húsbíla/gítarpartý á föstudagskvöldinu. Var það partý hið besta. Á laugardagskvöldinu skelltum við okkur norður í næsta fjörð, en sá fjörður heitir einmitt Norðurfjörður. Þar var hið prýðilegasta sveitaball með tilheyrandi öfögnuði. Það má með sanni segja að rollurnar hafi átt fótum fjör að launa þessa nótt.
Síðan lagði ég bara af stað frá Djúpuvík klukkan tvö á sunnudag og var ekki kominn heim fyrr en korter í tólf. Tímann sem ferðalagið tók má útskýra með miður góðu ástandi bílstjórans. Tvennt stórfurðulegt gerðist á leiðinni heim, annað skemmtilegt en hitt leiðinlegt. Í Staðarskala gleymdi ég fimmtán þúsund króna peysu sem ég á en það gleymdist allt þegar ég var kominn á Melrakkasléttuna því þá náði ég norskri útvarpsstöð sem var helvíti góð. Held meira að segja að gaurarnir tveir sem voru með þáttinn hafi bara verið nokkuð fyndnir.
Fréttir af heimkomu minni munu birtast í pistil hér á pagecannotbefound á næstu dögum.

Engin ummæli: