laugardagur, mars 13, 2004

Jahérnahér. Þetta var einn fantaflottasti konsert sem ég hef orðið vitni að. Árshátíð Úlpu og Botnleðju heima á Hansen. Botnleðjubræður hljóta að vera einhverjir húmorískustu og færustu tónlistarmenn sögunnar. Haraldur reytti af sér grínið og Heiðar söng með Týrolhatt og risastóran uppstoppaðan mink á herðum sér. Menn tóku Drullumallið og allt. Svívirðilegt.

Ekki það sem ég ætlaði að skrifa um en stundum tekur tíma að ná andanum... Sögu ætlaði ég hins vegar að segja af ónefndum rafti. Rafti sem eina kvöldstund afréð að taka til í íbúð sinni, ryksuga og hreinsa allar bjórflöskurnar af eldhúsborðinu. Á meðan tiltektin fór fram opnaði byttan bjór og hóf svo aðgerðirnar. Eftir mikið streð og juð fékk hann sér svo sæti í sófann og andvarpaði. Leit á eldhúsborðið og hugsaði af hverju í andskotanum bjórflöskurnar væru enn á borðinu, hann hefði tekið þær saman fyrir löngu. Uppgötvaði svo að á meðan hann tók til drakk hann sama magn af bjór og kvöldið áður. Þegar hann ætlaði að standa upp úr sófanum og taka bjórinn saman steinféll hann með fés við gólf vegna ölvunar og bölvaði slefandi. Þessi raftur bjó á Raufarhöfn.

Þar sem Jói Skagfjörð situr heima á Riben teljandi bjórana sem hann sötrar ákvað ég að skora á hann í keppni. Ég legg til að hann hætti sínu bjórþambi, tileinki sér nýjan lífstíl og komi sér í fantaformið sem hann var í er frjálsíþróttaferillinn var í mestum blóma.

Jói Skag, ég skora á þig í 400 m hlaup á frjálsíþróttavellinum í Kaplakrika á páskadag kl. 10.00. Sá er sigrar fær fyrir vikið kassa af bjór og sá er tapar þarf að taka þátt í Kvennahlaupinu næsta sumar. Takir þú veðmáli þessu er ljóst að við eigum báðir mikla vinnu fyrir höndum. Takir þú því ekki ertu forsmán og garmur.

Engin ummæli: