föstudagur, apríl 09, 2004

VÍN 7. apríl 2004
Þar sem enginn hefur lagt í að fjalla um síðasta matarklúbb, eða fjallað um nokkuð yfir höfuð, þá skal ég taka það að mér að þessu sinni. Landið að þessu sinni var Páskaeyja sem er austasti hluti pólinesísku eyjanna í Austur-Kyrrahafi. Verður að segjast að landið sé vel valið (klassa tímasetning) og var boðið því í bland hefðir frá Páskaeyju og íslenskir páskasiðir, því að á boðstólum var íslenskur páskabjór, tortilla kökur og snittur í forrétt (fékk reyndar aldrei að smakk þessar tortilla kökur). Í aðalrétt voru grillaðar lambalærissneiðar með grilluðum kartöflum og maís ásamt fersku salati (sem náði nýjum hæðum með furuhnetunum). Allt saman afar ljúfengt og segja má að Einar Andri hafi komið mjög á óvart því að hann er ekki þekktur fyrir mikla reynslu í eldamennskunni en Þorgeir verður að teljast meiri reynslubolti. Eftirrétturinn var einnig mjög góður, en það var grillaður banani með snikkers, ís og rjóma. Nægur mjöður var á svæðinu sem er þeim félögum til framdráttar. Því gef ég þeim félögum Einari Andra og Þorgeiri Arnari fjórar stjörnur af fimm sem verður að teljast mjög gott.

Yfir í annað, þá lærði ég nýtt orð í gær, þetta er orð sem lýsir e-u sem er flott, töff eða kúl... og aðeins örfáir vita hvað þýðir, þar til nú. Þetta orð var notað fyrir mörgum árum eða einum 10-15. Orðið lærði ég þegar ég fékk yfirfarna skýrslu frá kennara mínu í Tölvuvæddri hönnun og var það skrifað fyrir neðan mynd af hönnuninni minni. Jæja þá, orðið er SMÆKÓ, ég legg til að allir fari að nota þetta orð þegar þeir lýsa hrifninu sinni á e-u.

miðvikudagur, apríl 07, 2004

Af áskorun
Í gærkvöldi fór ég á myndbandaleiguna með keppendum áskorunarinnar miklu. Ekkert voðalega merkilegt í sjálfu sér, allir geta leigt video spólu! Við komum okkur fyrir í mjúkum hægindastólum á heimili Jóhanns og byrjuðum að horfa. Keppendurnir kvörtuðu yfir miklu álagi undanfarna viku og áður en ég vissi af voru þeir báðir steinsofnaðir yfir miðri mynd. Fyrir ári síðan hefði það verið ég sem hefði sofnað fyrstur. En hver er ástæðan fyrir þessu mikla álagi á strákunum, jú það eru 5 dagar í að áskorunin fari fram og auðvitað nýta þeir allan sinn litla frítíma til þess að æfa sig og eru að sjálfsögðu mikið þreyttir þessa dagana auk þess þá fylgir því eflaust mikið álag að taka þátt í keppni sem þessari. En af veðbankanum er það að frétta að eins og er þykir Krissi örlítið sigurstranglegri en munurinn er innan skekkjumarka.

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Rakst á umfjöllun um ferð handboltaliðs FH á Akureyri um helgina á fhingar.is:

“Heimferðin gekk mjög vel en pissupollarnir eru víst allnokkrir á þjóðveginum það var nefnilega ekkert vatn í klósettinu í rútunni og það var alveg merkilegt hvað menn þurftu oft að tæma blöðruna á leiðinni heim hmmm...

Annars erum við strákarnir bara glaðir yfir ágætisgengi undanfarnar vikur og hlökkum til að sjá ykkur FH-inga á miðvikudaginn þegar við spilum við HK í umspilinu og þá þarf að styðja við bakið á okkur þar sem við getum verið ansi brothættir og er það undir ykkur komið að halda okkur gangandi inná vellinum!!”

Úff… Ég ætlaði að skrifa helling og níða svona hugarfar í svaðið en ég á bágt með það. Hristi bara hausinn í staðinn. Vona að utandeildarhugsunarhátturinn verði geymdur heima er menn mæta í leikinn gegn HK á miðvikudaginn…

mánudagur, apríl 05, 2004

Þegar ég var lítill kunnu krakkar ekkert á hljóðfæri. Ja, þeir sem kunnu það voru flestir lagðir í einelti fyrir vikið. Munum t.d. flest eftir Jóa túbu og Fiðlu-Baldri. Ekki þóttu það merkilegir pappírar. Sem betur fer er þróunin önnur í dag. Nú kann annar hver krakkagemlingur á gítar eða trommur og allir eru í hljómsveitum. Í vetur sýndi einn guttinn sem ég er að þjálfa mér trommusettið sitt. Hann spilar ávallt á settið með massívan kappaksturhjálm á hausnum því hann á til að lemja sig firnafast í höfuðið í trommusólóum. Sá káti piltur kunni líka á gítar og var í tveimur hljómsveitum. Önnur þeirra, Gallafötin, er reyndar eiginlega hætt.

Einnig er vert að minnast þriggja félaga sem tjáðu mér um daginn að þeir kæmust ekki á næstu fótboltaæfingu þar sem þeir væru að fara í stúdíó. Níu ára gaurar! Þegar ég var níu ára var ég borðandi sand og safnandi fótboltamyndum... Milli þess sem ég henti eggjum í hús Jóa túbu og Fiðlu-Baldurs.

Síðasta dæmið er svo enn annar gaur sem ég er að þjálfa. Sá gerðist það brattur að mæta heim til mín áðan, aðallega til að segja mér frá rafmagnsgítarnum sem hann langar í. Ég missti úr mér að ég ætti nú svoleiðis apparat sem hann vildi ólmur skoða. Kemur í ljós að kauði er betri en ég á gítar, enda forsprakki sveitarinnar Þrír sykurpúðar. Það var nokkuð magnað að sjá hvað gaurinn var öflugur á gítar en ennþá magnaðri er sú staðreynd að ég náði einhvern veginn að halda hlátrinum inni í mér er hann sagði mér hljómsveitarnafnið.

Allavega, það sem ég er að reyna að segja er að ég hef ákveðið að hætta í hljómsveitinni Görlíbojs. Danni, Jói... Þetta var skemmtilegt ferðalag en ég tel að hæfileikar mínir njóti sín betur í herbúðum Þriggja sykurpúða (sem líklega verða orðnir fjórir ef ég bætist við). Ég þakka ykkur fyrir samstarfið og ítreka að ég mun alltaf bera virðingu fyrir ykkur sem listamönnum.